Uppbygging framundan á Hellu

Þetta viðtal við Guðmund Ágúst Ingvarsson formann GHR birtist á vefmiðlinum www.kylfingur.is föstudaginn 29. apríl 2022.

„Við tökum vel á móti öllum á Strandarvelli, “ segir Guðmundur Ágúst Ingvarsson, formaður GHR í stuttu spjalli.

„Það er margt að gerast hjá okkur á Hellu og við stefnum að frekari framkvæmdum og fjölgun félaga,“ segir Guðmundur Ágúst Ingvarsson, formaður Golfklúbbs Hellu en klúbburinn fagnar 70 ára afmæli á árinu.
Golfklúbbur Hellu var stofnaður 22. júní árið 1952 og er vel þekktur meðal kylfinga á landinu. Íslandsmótið í höggleik hefur verið haldið á vellinum í tvígang, árin 2002 og 2012.

„Við höfum ráðið lærðan vallarstjóra, Einar Ó. Pálsson, sem við erum sannfærð um að eigi eftir að gera mjög góða hluti fyrir völlinn. Það þarf að fara í vinnu við flatirnar en þær hafa ekki komið vel undan vetri. Það þarf að sanda, gata og sá í. Við reiknum með að sú vinna taki árið og jafnvel næsta ár einnig. Að öðru leyti kemur völlurinn vel undan vetri. Við bindum miklar vonir við að þetta sumar verði klúbbnum mjög farsælt og við getum meira horft til framtíðar uppbyggingar innan klúbbsins,“ segir Guðmundur Ágúst.
Félagar í Golfklúbbi Hellu koma bæði frá Hellu og Hvolsvelli en einnig víðar að.

„Jú okkar félagar koma víða að úr sýslunni. Við fáum fólk hérna úr sumarhúsunum og frá jörðunum í kringum okkur. Þá er fólk einnig að skreppa hingað af höfuðborgarsvæðinu til að spila. Það er almennt auðvelt að fá hér rástíma og svo er þetta bara rúmlega klukkutíma rúntur með fjölskyldunni eða vinunum hingað yfir. Hér er fullt af veitingastöðum í nágrenninu og hér geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi hvað það varðar.“

„Stundum er sagt að það sé hægt að skipta fólki í fylkingar. Önnur gæti verið þau sem lifa til að borða og hin þau sem borða til að lifa en báðir hóparnir geta fundið nóg á þessari leið,“ segir Guðmundur Ágúst léttur.
Þegar talið berst að veitingum er ekki úr vegi að spyrja út í veitingarekstur í golfskálanum.
Guðmundur segir klúbbinn vera búinn að semja við vert til að taka að sér veitingar í klúbbhúsinu.
„Veitingasalan verður á efri hæðinni hjá okkur en öll félagsstarfsemi verður á jarðhæðinni. Þannig þarf fólk ekki að fara upp stigann nema það ætli sér á veitingastaðinn.“

Í Golfklúbbi Hellu eru, að sögn Guðmundar, á milli 130 og 150 félagar og fer þeim fjölgandi.
„Við bindum vonir okkar við að með nýjum vallarstjóra muni félögum fjölga enn frekar.“
Guðmundur segir félagsstarfið mjög gott þó því sé kannski ekki haldið uppi af stórum hópi.
„Hópurinn er samheldinn, og ber hag klúbbsins fyrir brjósti. Það skiptir mestu máli. Við getum bætt okkur í kvennastarfinu og erum að útfæra þá vinnu um þessar mundir. Við höfum trú á að öflugt kvennastarf geri heilmikið fyrir klúbbinn og við ætlum okkur að spýta verulega í þar.“

GHR opnaði nýlega nýja, glæsilega heimasíðu sem Guðmundur segir að ríki mikil ánægja með. Síðan er bæði upplýsingasíða um Golfklúbb Hellu og starfsemina en auk þess er hægt að bóka rástíma á Strandarvöll á síðunni.
„Við hófum þessa vinnu um áramótin síðustu, svo þetta hefur tekið sinn tíma en tímanum var mjög vel varið því útkoman er hreint út sagt glæsileg og verður enn betri þegar við höfum hlaðið meira efni inn á síðuna. Við sömdum við ungan mann sem heitir Bergur Ingi og hann hefur unnið mjög gott starf fyrir okkur. Bergur hefur innsýn í golfíþróttina og hefur hannað golfsíður áður, sem auðveldaði vinnuna.“

Á Strandarvelli verður talsvert af fyrirtækjamótum og minni mótum í sumar. Þá fer Íslandsmót golfklúbba í aldursflokkunum 16 ára og yngri annars vegar og 18 ára og yngri hins vegar fram á Hellu. Opna Lancome mótið hefur notið mikilla vinsælda síðan það fór fyrst fram á Strandarvelli. En eru fleiri mót á döfinni?
„Við ætlum að reyna að blása til afmælismóts klúbbsins í sumar en það er ekki komið lengra en á teikniborðið. Við þurfum að finna tíma til að fagna 70 árum klúbbsins með þeim hætti,“ segir Guðmundur Ágúst.

Klúbbhúsið á Hellu er byggt árið 1933 og það fór talsvert illa í vonskuveðri í vetur.
„Það flæddi inn á báðar hæðir hússins og miklir vindar gerðu okkur erfitt fyrir en við erum að koma öllu í gott horf og stefnum á að opna húsið núna 1. maí,“ segir Guðmundur.

Að lokum vill Guðmundur hvetja alla til að leggja leið sína á Hellu í sumar, sér í lagi þá sem hafa ekki leikið Strandarvöll áður.
„Ef menn hafa ekki spilað hérna hjá okkur, þá er sannarlega kominn tími til. Við tökum vel á móti öllum á Strandarvelli.“

Share this :
BLOG

Aðrar fréttir

Sit maecenas consequat massa nibh duis dolor nulla vulputate blandit purus nisl donec lobortis interdum donec etiam.