Saga Golfklúbbs Hellu

Sagan

Sagan

Saga Golfklúbbs Hellu - GHR í 70 ár

Golfklúbbur Hellu var stofnaður 22. júni 1952 og verður því 70 ára á þessu ári. Aðalhvatamenn og stofnendur klúbbsins vorur Ásgeir Ólafsson og Helmut Stolzenwald á Hellu, en Rúdólf Stolzenwald varð fyrsti formaður golfklúbbsins. Klúbbnum áskotnaðist land á Gaddstaðaflötum sem nú er mannvirki hestamannafélagsins og hestamannavöllur. Fyrsti völlur klúbbsins var níu holur og var leikið á honum nokkuð reglubundið til ársins 1958, en þá missti klúbburinn landið. Vegna fámennis og vallarleysis lagðist klúbburinn niður tímabundið um 1960. Skammstöfun klúbbsins var þá GH en varð síðar GHR.

Á þessum tíma var eitthvað um heimsóknir kylfinga frá Vestmannaeyjum og Hveragerði og vitað er um eina keppni á milli Golfklúbbs Reykjavíkur og Golfklúbbs Vestmannaeyja á vellinum. Vitað er um að spilaður var fótbolti þarna á svæðinu um 1955. Einnig segja sögur að flugvöllurinn á Hellu hafi verið notaðar til æfinga hjá þeim áhugamestu þegar vallaraðstaða var ekki lengur til staðar.

Þeir kylfingar sem voru að spila völlinn og læra golfíþróttina á þessum tíma og vert er að nefna (auk þeirra sem fyrr eru nefndir) eru: Óskar Einarsson, Sigurður Karlsson, Bragi Gunnarsson, Einar Kristinsson, Svavar Kristinsson, Bjarnhéðinn Guðjónsson, Hjörleifur Jónsson, Ingólfur Jónsson og Guðlaug Ingólfsdóttir frá Hellu og frá Þykkvabæ, Magnús Sigurlásson og Hilmar Friðriksson, meðal annarra. Klúbbmeðlimir nutu einhverrar leiðsagnar frá Ásgeiri Ólafssyni og syni hans Þorvaldi Ásgeirssyni. Margfaldur íslandsmeistari kom einnig og leiðbeindi okkar brautryðjendum. Ásgeir var einnig í stjórn Golfklúbbs Íslands og varð golfmeistari öldunga árið 1950.

Um 1972 fékkst síðan land við bæinn Strönd sem áður var skólahús byggt árið 1933, en var í ábúð á þessum árum. Þar byrjar í raun fyrri endurreisn klúbbsins og byggður var níu holu völlur á túnum bæjarins sem var grófteiknaður af Rúdólf Stolzenwald. Keyptar voru vélar fyrir flatarslátt fljótlega ásamt mosatætarasláttuvél og menn byrjuðu strax að starfa og koma vellinum í spilahæft form. En það gekk ekki þrautalaust með svo fáa félaga. Margir komu að þessu verki bæði frá Hellu, og nærsveitum og þar á meðal var Einar Kristinsson sem varð síðan formaður frá 1970-1977. Á þessu tímabili var ekki starfrækt eiginleg stjórn eða nefndarstarf og nánast ekkert mótahald fyrr en um 1977. Fyrsta meistaramót klúbbsins var haldið 1978 ef heimildir eru réttar. Mótið var 36 holu mót í fyrstu og man undirritaður eftir því að Þorvaldur Ásgeirsson Íslandsmeistari til margra ára og sonur eins af stofnendum GHR, spilaði sem gestur í mótinu.

Hér má nefna nokkra sem komu að starfinu og golfleik : Ægir Þorgilsson, Árni Hannesson, Árni Sigurjónsson, Hálfdán Guðmundsson, Knútur Scheving, Gunnar Sigurjónsson, Gunnar Hubner, Þorsteinn Ragnarsson, Svavar Bjarnhéðinsson, Jónas Hermannsson, Helgi Hermannsson, Gunnar Hjartarson, bræðurnir Jón og Bogi Thorarensen og fleiri. Félagar hafa verið frá 10-15 á þessu tímabili og spilað var á vellinum í tæpan áratug.

Árið 1977 er Hermann Magnússon kjörinn formaður og hefst þá tímabil í sögu klúbbsins sem voru okkar stærstu spor og í Hermanni bjó mikill drifkraftur sem dreif félagana áfram í sjálfboðavinnu sem lögðu grunninn að því hvernig okkar góða aðstaða er í dag. Mynduð var stjórn 1977 og nefndir og hið eiginlega félagssarf hófst. Þarna var kominn meiri grundvöllur fyrir því að gera aðstöðuna betri og fleiri hendur unnu það verk og völlurinn varð vel spilahæfur. Félagar héldu sem dæmi eitt réttarball til að fjármagna sláttuvélakaup og sú vél er enn nothæf.

Á þessum tíma fjölgaði talsvert af félögum í golfklúbbnum og 23 skráðu sig í klúbbinn þetta ár. Golfklúbburinn gekk formlega í GSÍ um þetta leyti. Klúbburinn fékk lánaðan vegavinnuskúr í einhvern tíma til að hafa lágmarks aðstöðu í fyrstu. Einnig var notast við tjöld fyrir veitingaaðstöðu.

Það gekk ekki alltaf áfallalaust samstarf ábúenda á Strönd og golfklúbbins. Hestar, rollur og hundur bóndans völsuðu um golfvöllinn og dæmi voru um að hundur bóndans tók kúlur kylfinga og var mönnum farið að gruna ýmislegt í þeim efnum. Margar ferðir voru farnar á skrifstofu sveitarstjóra og kvartað yfir ágangi bóndans á strönd og um 1980 var gert samkomulag milli Rangárvallhrepps, sem var landeigandi, og hins vegar golfklúbbins þar að lútandi að klúbburinn léti eftir land vestan síkis að mestu og missti þar fjórar golfbrautir af vellinum en fengi svæði austan síkis til vallargerðar.

Á þessum tíma var formanninum Hermanni Magnússyni mikið í mun að kynna völlinn og aðstöðuna og hélt sem dæmi boðsmót sem síðar varð Strandarmótið – Öldungamót og var lokahóf í fyrstu mótunum haldið í Verkalýðshúsinu á Hellu og tóku eiginkonur félaga GHR þátt í því að smyrja ofan í mannskapinn. Strandarmótið sem haldið var árið 1981 var vel mannað enda mættu 80 kylfingar, 55 ára og eldri í mótið.

Um þetta leyti var samþykkt á félagsfundi að kaupa hús fyrir golfskála af Landsvirkjun og var hann settur saman og reistur um 1980, tekin formlega í notkun 1. maí 1982 og vígður í september sama ár. Golfskálinn gjörbreytti öllu félagsstarfi og aðstöðu við mótahald. GHR fékk styrk úr Íþróttasjóði Ríkisins til kaupanna. Staðsetning skálans var nálægt Strandarsíki og var átjánda flöt vallarins við skálann sem er áttunda flöt núverandi vallar. Vatnsmál voru í ólestri og ekkert rafmagn var í skálanum fyrstu árin. Mikil sjálfboðavinna var við uppbyggingu skálans og voru Guðmundur, Brynjólfur og Stefán Jónssynir fremstir í flokki þar ásamt fleirum og árið 1990 var núverandi vélageymsla reist fyrir tæki og tól klúbbsins. Viðbygging var síðan reist við skálann fyrir landsmótið 1995.

Frá 1980 gekk klúbburinn í gegnum erfitt tímabil rekstralega og tók það um áratug að koma því í viðunandi horf. Félagar voru 46 talsins á þessum tímapunkti. Um 65 félagar voru í GHR á þessum tímamótum og um þriðjungur ungviði.

Um 1983 hófst síðan uppbygging formlega á vellinum eins og hann er í dag. Á landinu voru þá eingöngu tveir átján holu vellir, Grafarholt og Jaðarsvöllur. Sem dæmi var Hvaleyrin tólf holur og menn að skoða stækkunarmöguleika Leirunnar á þessum tímamótum. Það var því ansi stórt skref að fara í stækkun vallar hjá litlum landsbyggðarklúbbi . Líklega voru flestir félagsmenn sáttir við níu holu völl en enn var það drifkraftur Hermanns að átján holu draumurinn yrði að veruleika. Einnig var gengið frá leigusamningi sama ár við Landgræðslu ríkisins og Rangárvallahrepp. Landgræðslan lagði til fræ og áburð um nokkura ára skeið og það má sjá á vallarstæðinu í dag að því var vel varið og Golfklúbburinn hefur lagt mikið til í landgræðslustarfi. Einnig stóð Landgræðslan í girðingavinnu sem lokaði völlinn af norðan og austan megin vallarstæðis. Þarna fer völlurinn fyrst í breyttan níu holu golfvöll um 1983 og síðar í átjándu holu uppbyggingu með þrjár gamlar holur (flatir) af fyrsta velllinum á Strönd og fimmtán holur nýjar gerðar vestan og austan megin við Strandarsíkið.

GHR gekk í HSK á þessum tíma eða 1982 og þess má geta að vallargjald var 50 krónur um þetta leyti.

Fyrstu teikninguna af átján holu vellinum gerði Barry John Guttridge árið 1981, en hann var enskur golfkennari hér á landi á vegum Austurbakka og var með kennslu á Strandarvelli. Fékk hann þá áhuga á að skoða með forráðamönnum klúbbsins fyrirhugaða legu vallarins og vildi fá að gera grófa teikningu af nýjum 18 holu velli. Hann var um eina viku á Ásmundastöðum og teiknaði fyrstu drögin á pappír úr hæsnafóðurspoka í eldhúsi eins klúbbfélaga GHR. Frumteikningunni var breytt talsvert þegar völlurinn var lagður af félögum og það má segja að landið hafi mótað völlinn að mestu og gert hann að alvöru ,,inn í landi‘‘ LINKS velli. Landfræðilegar aðstæður sem komu upp urðu til þess að hverfa þurfti frá fyrstu teikningum Bretans.

Nokkrir félagar komu að þessari stóru framkvæmd og stýrði Hermann því að mestu og Örn Hauksson, Jón Ögmundsson, Stefán Jónsson, Sigursteinn Steindórsson, Haukur Baldvinsson og Garðar Jóhannsson sem lagði einnig til tæki og mannskap, ásamt fleirum sem unnu við það að móta brautirnar með traktor og fyrrnefndum mosatætara. Það gekk misjafnlega og laus sandur bæði í síkinu og undir brautum tafði verkið. Jarðvegur Strandarvallar er mjög sandblendinn og væntanlega eitthvað öskublandaður. Völlurinn er því mjög fljótþornandi og fljótt tilbúinn til vorgolfs og öll síðari hirðing varð því mjög þægileg í alla staði. Einnig fékk klúbburinn aðstoð frá nágrannanum Sigurði Haraldssyni á Kirkjubæ við grófslátt brauta í tvö sumur og fékk einnig lánaða sláttuvél hjá Graskögglaverksmiðjunni. Byggðar voru tvær brýr yfir síkið sem gátu borið vélar og þung tæki sem breytti miklu í uppbyggingu og umhirðu vallarins.

Núverandi átján holu Strandarvöllur var formlega tekinn í notkun 1986 á Jónsmessu en fyrsta meistaramótið á átján holu Strandarvelli var haldið árinu fyrr. Fimm átján holu vellir voru í leik á landinu á þessum tímapunkti. Um svipað leyti fékk GOS – Golfklúbbur Selfoss aðstöðu í eitt sumar fyrir golfleik og mótahald, vegna vallarleysis. Einnig var á þessum tíma hannað nýtt GHR merki klúbbsins en Valur Fannar gullsmiður teiknaði það og færði klúbbnum að gjöf (fyrsta merkið eða GH merkið teiknaði Rúdolf Stolzenwald).

Ekki eru til nákvæmar heimildir um hvenær ráðist var i aðrar endurbætur en líklega hafa hvítir teigar verið gerðir rétt fyrir Landsmótið 1991 og síðar sextánda og þriðja flötin endurbyggð, sautjánda flöt stækkuð, fimmtánda flöt endurbyggð og síðast fimmta flötin. Einnig hafa orðið teigabreytingar eins og á átjándu holu og þriðju holu en þær voru styttar og eru gömlu gulu teigarnir þar nú orðnir hvítir. Einnig var stofnkerfi fyrir vökvun vallarinns sett niður á þessum tíma (miðað við röð vallarsins nú).

Árið 1986 tekur Svavar Friðleifsson við formennsku klúbbsins og gegnir henni til 1997. Guðmundur Magnússon tekur við formannstöðunni og gegnir henni til ársins 2000.

Á vellinum eru nú á annan tug tegunda af trjám og runnum og það má segja Haukur Baldvinsson hafi unnið þrekvirki í því að planta mörg þúsund plöntum í skjólgarða og byrjar það starf í kringum 1980. Þessir skjólgarðar hafa gert mikið fyrir annan gróður og slá aðeins á vindinn sem er staðbundinn á Strandarvelli. Þetta framtak hans smitaði aðra félaga til verka og nú eru nokkur hundruð þúsund tré og plöntur á vellinum. Einnig hefur nátturulegur víðir tekið vel við sér og fuglalíf aukist verulega á vallarsvæðinu. Landgræðsla Ríkisins, Rarik og Skógrækt Rangæinga hafa lagt mikið til trjáræktarinnar og gefið klúbbnum þúsundir plantna til gróðursetningar. Einnig hefur Landsvirkjun verið með skólakrakka á vellinum við gróðursetningu og margir félagar GHR að auki.

Um 1990 má sjá talsverða fjölgun á félögum. Þá eru félagar um 85 talsins og mótahald orðið líflegt, þrír fastir starfsmenn á vellinum og vísir að því að starfið færi vel af stað. Vélakostur var orðinn betri á þessum tímapunkti en mikið starf sem félagar lögðu í að gera upp og laga gömul tæki og tól til umhirðunar, var Örn Hauksson og Jón Ögmundsson þar fremstir í flokki á þessum fyrstu árum.

Það má segja að uppbyggingin hafi gengið hratt fyrir sig því Golfkúbbur Hellu – GHR heldur sitt fyrsta Landsmót sem þá var kallað árið 1991. Það má segja að það hafi verið þrekvirki og þrautseigja fyrir lítinn klúbb að halda mótið en um 120 keppendur voru skráðir til leiks. Landsmót var haldið á vellinum árið 1995 með um 340 keppendur og síðan Íslandsmót í höggleik árið 2002. Einnig hefur þar verið haldið alþjóðlegt unglingamót.

Á þessum tímamótum hefur 1. maí mótið verið haldið á vellinum í þrjá áratugi og er því orðið að hefð í íslenskri golfsögu. Fyrsta mótið 1. maí var kallað 30 ára afmælismót og hefur það nánast alltaf staðist áætlun síðan. Aðeins hefur þurft að fresta mótinu í nokkur skipti um dag til eða frá og einu sinni var því frestað til 13. maí vegna snjóalaga, en oft hafa verið misjöfn veður og kylfingar látið sig hafa það að spila. Góð þátttaka hefur ávallt verð í mótinu, allt að 260 kylfingar farið völlinn á einum degi og fyrstu rástímar oft við sólarupprás. Áhuginn var svo mikill hér áður að félagar úr Golfklúbbi Akureyrar flugu á Helluflugvöll til að geta tekið þátt í mótinu. Golfklúbburinn þakkar kylfingum fyrir að vera þessu móti svo trúir sem raun ber vitni og hefur það sannarlega verið þáttur í uppbyggingu klúbbsins.

Golfklúbbur Hellu gekk formlega í GSÍ árið 1977. Samstarf GSÍ hefur ætið verið gott við Golfklúbbinn og stjórnarmenn hans og má geta þess að bræðurnir Gunnar og Þórir Bragasynir meðlimir GHR hafa verði þar fremstir meðal jafningja og unnið ýmis trúnaðarstörf fyrir GSÍ. Gunnar var forseti GSÍ frá 1999-2001 og Þórir hefur unnið við dómarastörf til margra ára og er með landsdómararéttindi. Hann var m.a. dómari í Landsmótinu 1995 og Íslandsmótinu í höggleik 2002 á Strandarvelli. Einnig var Gunnar kosinn í mótanefnd EGA (European Golf Association). Gunnar er fyrsti Íslendingurinn sem tekur sæti í mótanefndinni og sat í nefndinni í fjögur ár. Hann hlaut einróma stuðning allra fulltrúa á EGA-þinginu, en Norðurlandaþjóðirnar tilnefndu Gunnar sem sinn fulltrúa í nefndina. Guðmundur Magnússon, fyrrverandi formaður GHR, hefur einnig setið í vallarmatsnefnd GSÍ til fjölda ára.

Það er síðan árið 1999 sem klúbburinn fær tækifæri að kaupa húsið að Strönd sem var gert og samið við erfingja ábúands. Þar var komið frekara tækifæri til að bæta aðstöðuna til muna með betri húskosti, æfingasvæði af bestu gerð. Tjald – og bílastæðavandamál voru úr sögunni. Reist var viðbygging við skálann og húsið tekið í gegn. Enn og aftur þrotlaus sjálfboðavinna sem hefur verið lykillinn í okkar starfi og voru Óskar Pálsson og Katrín Aðalbjörnsdóttir þau sem þar drifu endurbyggingu skálans áfram. Einnig komu Arngrímur Benjamínson og Brynjólfur Jónsson mikið að þeim breytingum og smíðavinnu.

Stór, góð æfingapúttflöt var byggð fyrir neðan skálann og nýr, stór fyrsti teigur. Æfingasvæði var stækkað til muna og síðar hefur verið ráðist í að helluleggja bílaplan við skálann og lagning á bundu slitlagi við heimreið að klúbbhúsi ásamt byggingu Golfbílaskýlis fór fram árið 2011. Æfingavöllur fyrir unglinga og byrjendur er í vinnslu vestan við vallarstæðið og ætti fara í notkun í sumar.

Á afmælisári klúbbsins árið 2002 var vellinum snúið þannig ellefta hola gamla vallarins varð að fyrstu holu frá skála og gamla sjöunda holan að þeirri átjándu. Sama ár var núverandi golfskáli tekinn formlega í notkun og vígður af séra Sigurði Jónssyni presti í Odda.

Til að auðvelda þessa fjármögnun á kaupum á húsinu fyrir golfskála, búningaaðstöðu og veitingasal var rætt við sveitarstjórnarmenn í sýslunni um að sveitarfélögin myndu styðja við verkefnið. Niðurstaðan var að stofna hlutafélag um rekstur Strandarvallar og varð það að veruleika í janúar 2001. GHR kom með golfvöllinn, golfskálann og tæki inn í félagið og nánast öll sveitarfélögin í sýslunni komu með peningaframlag í formi hlutafjár. Þessi stuðningur gerði það mögulegt að ráðast í kaup á gamla skólahúsinu og framkvæma nauðsynlegar breytingar og viðbætur. Vissulega þurfti einnig að taka lán til framkvæmdanna, þannig að rekstur félagsins var erfiður fyrstu árin. Það tókst nokkuð hratt að greiða lánin niður og um 2007 var rekstrarfélagið nánast skuldlaust.

Rekstrarfélagið Strandarvöllur ehf. hefur frá stofnun séð um rekstur Strandarvallar og haft umsjón með starfsmönnum, bæði á vellinum og í golfskálanum. Golfklúbburinn (GHR) hefur umsjón með félagsstarfinu og er tengiliður við íþróttahreyfinguna í landinu. Mikilvægur hluti af starfsemi GHR er umsjón með unglingastarfi og afreksstarfi.

Í tengslum við færslu golfskálans í gamla skólahúsið var samið við Rangárvallahrepp um að fá byggingarleyfi fyrir nokkur sumarhús fyrir vestan 1. braut. Þar er nú heimilt að reisa tíu sumarhús, þar af hafa þrjú þegar verið reist. Þær lóðir sem eftir eru er ætlunin að selja til orlofssjóða launþegasamtaka eða stærri fyrirtækja til að reisa þar sumarhús. Útleiga á þeim sumarhúsum sem þegar hafa verið byggð hefur gengið mjög vel allt árið. Það er ekki á mörgum golfvöllum sem þessi möguleiki býðst, þ.e. að hafa gistiaðstöðu í sumarhúsi rétt við völlinn. Golfið á Íslandi hefur vaxið mikið sem almenningssport og Strandarvöllur hefur fundið vel þá jákvæðu þróun.

Um svipað leiti var gerður fyrsti vinavallasamningurinn og hann var við Golfklúbb Reykjavíkur um afnot klúbbmeðlima þeirra af vellinum, í stað greiðslu og sértækrar aðstoðar við umhirðu Strandarvallar. Þetta hefur gefist vel og hafa fleiri vinavallavellir bæst við, segja að GHR hafi verið brautryðjandi golfklúbba í þessum málum.

Það má segja að fyrsti vísir af unglingastarfi hafi byrjað eftir 1980, enda fór allt púður í uppbyggingu vallanna og að fá félaga í klúbbinn. Unglingastarf klúbbsins hefur gengið misjafnlega og má segja að það komi í bylgjum. Það var oft líflegt og gaman að sjá krakka á vellinum. Æfingarsvæði og félagar GHR tóku að sér að leiðbeina í fyrstu, einnig héldu nokkrir drengir úti þriggja holu velli nokkur sumur í kringum 1975 á Hellu og margir þeirra spila eða fikta við golf enn þann dag í dag. Undanfarinn áratug hefur unglingastarfið gengið hægar og kannski er staðsetning vallarins þar einhver áhrifavaldur og það að fleira er um að vera hjá börnum, ólíkt hjá þeim klúbbum sem eru með golfvöllinn staðsettan nær bæjum. Í uppbyggingu er æfingarvöllur fyrir unglingastarfið og byrjendur vestan við æfingasvæðið.

Klúbburinn er með ungan afreksmann í golfíþróttinni, Andra Má Óskarsson, sem var mjög sigursæll í gegnum öll unglingamót GSÍ og er núverandi klúbbmeistari 2011. Hann er í fremstu röð kylfinga á Íslandi, hann átti gott ár á stigmótum og var annar á Íslandsmóti í holukeppni árið 2011. Andri Már hefur verið í sveit landsbyggðarinnar undanfarin ár og spilaði sig inn í afrekshóp GSÍ. Hann keppti einnig á The Duke of York meistaramótinu árið 2007 og Faldo Series. Einnig tekið þátt í nokkrum keppnum á erlendri grundu.

Andri Már hefur orðið klúbbmeistari GHR þrisvar sinnum og tekið við keflinu frá föður sínum Óskari Pálssyni sem oftast hefur orðið klúbbmeistari eða tuttugu og einu sinni. Hjá konunum hefur Sigríður Hannesdóttir oftast orðið klúbbmeistari eða átta sinnum.

Til gamans er vert að hafa það með í sögunni og nefna þá félaga sem hafa farið holu í höggi.

Arngrímur Benjamínsson 13. hola, Arnar Sigmarsson 8. Hola (gamla vellinum), Björgvin Guðmundsson, 11 hola, Einar Long, (erlendis), Garðar Jóhannsson 8,13. holu (á Oddi), Guðmundur Magnússon 9. Hola (gamla vellinum), Hermann Magnússon 8. hola (gamla vellinum), Jóhann Sigurðsson 2. hola, Kjartan Aðalbjörnsson 8. hola, Ólafur Stolzenwald 9. Hola (gamla vellinum) Óskar Pálsson 9. Hola (gamla vellinum) og 13 holu, Pálmi Reyr Ísólfsson 8. hola, Rúdólf Stolzenwald 9. hola (gamla vellinum), Svavar G. Ingvason 4. Hola, Þórir Bragason 10. hola (Hvaleyri), þorsteinn Ragnarsson 8. Hola

 • 20. júlí 1988 Hermann Magnússon, Fáni og barmmerki
 • 20. júlí 1988 – Haukur Baldvinsson, Fáni og barmmerki
 • 26. jan. 1991 – Guðmundur Jónsson, Fáni og gullmerki GHR
 • 20. nóv. 2003 – Brynjólfur Jónsson, Silfurskjöldur
 • 25. nóv. 2007 – Svavar Friðleifsson, Silfurskjöldur

 

Gullmerki GHR

 • Hermann Magnússon, 1988
 • Haukur Balvinsson, 1988
 • Guðmundur Jónsson, 1991
 • Svavar Frifleifsson, 1998
 • Guðmundur Magnússon, 2000

 

Silfurmerki GHR

 • Gunnar Marmundsson, 1991
 • Aðalbjörn Kjartansson, 1993
 • Torfi Jónsson, 1993
 • Gunnar Bragason, 1993
 • Örn Hauksson, 1993
 • Emil Gíslason, 1994
 • Þóroddur Skúlason, 1998
 • Þorsteinn Ragnarsson, 2000
 • Þórir Bragason, 2000

 

Bronsmerki GHR

 • Brynjólfur Jónsson, 2000

Fjallahringurinn umvefur vallarstæðið og helst má þar nefna Heklu, Tindfjöll og Eyjafjallajökul. Einnig sést til Vestmannaeyja. Eldfjöllin í kringum okkur hafa verið nokkuð hljóðlát en Eyjafjallajökull hafði áhrif á klúbbastarfið vorið 2010 og talsverð aska kom á völlinn sem hafði einhver áhrif á spil kylfinga, sem dæmi voru grímur til sölu í golfskála þegar verst lét. Talsverð áhrif hafði askan á sláttuvélar og tæki. Askan fíngerða gerði það að verkum að bit fór úr hnífum sláttuvéla og kallaði á aukið viðhald en hafði þó góð áhrif sem áburður og sáust merki þess á vellinum. Kylfingar muna líka enn eftir gosi sem hófst í Heklu í ágúst 1980, þann dag var mót á vellinum.

Það eru mikil LINKS áhrif í vellinum þó svo að hann liggi ekki að sjó eins hinir eiginlegu Linksvellir gera. Melhólar móta völlinn austan síkis og gefa vellinum þetta strandvallayfirbragð. Slegið er yfir Strandarsíkið á þremur holum og völlurinn er umvafinn trjám og lággróðri og eru brautir og flatir ávallt harðar, með mikið rennsli. Ekki eru margir bönkerar á Strandarvelli en hólar austan síkis hremma bolta kylfinga.

Hér má nefna Flugbrautina sem er þriðja hola vallarins. Fékk hún nafnið þegar kylfingur í Reykjavík flaug reglulega með golfsettið sitt og lenti á henni og hóf leik. Holan á eftir henni er svokallað frímerkið og ber nafnið því flötin hefur ávallt verið slegin í ferning. Frá gamla vellinum er vert að nefna Harðhausinn svokallaða en það er stærsti hóllinn á vellinum, var sjöunda braut í þá daga, slegið blint yfir harðhausinn. Einnig fjárhúsbrautina en hún lá nálægt fjárhúsum bóndans á Strönd.

Félagar eru nú yfir 150 talsins og staða klúbbsins góð, ákveðið rekstaröryggi varð þegar rekstrarfélagið var stofnað. Frá árinu 2000 til 2021 þá hefur Óskar Pálsson gegnt formannsstöðunni en nýr formaður Guðmundur Ágúst Ingvarsson var kjörinn haustið 2021

Það var skemmtilegt og fræðandi að taka söguna saman og sjá í leiðinni hvað mikið þrekvirki það er búið að vera fyrir lítinn landsbyggðaklúbb að halda starfinu úti. Aðstaða okkar er góð í dag og nægur þróttur í enn meiri uppbyggingu Strandarvallar og aðstöðu fyrir kylfinga GHR og gesti okkar. Það gekk ekki alveg þrautalaust að draga þetta saman og skáldaleyfi notað í sumum tilfellum. Á síðustu mánuðum hefur verið haft samband við hátt í 20 manns sem tengjast sögunni, okkur eða ættingjum brautryðjenda. Greinarhöfundur hefur reynt að nefna til leiks marga GHR félaga og eflaust verða einhverjir óvart ekki nefndir sem komið hafa að starfinu. Reyndi ég samt að draga fram nöfn sem flestra er komu allra fyrst að golfinu í sýslunni eða okkar frumkvöðla.

Vert er að minnast félaga sem eru fallnir frá og lögðu hönd á plóginn. Þar má nefna Ásgeir Ólafsson Helmut Stolzenwald, Rúdólf Stolzenwald, Hermann Magnússon, Hauk Baldvinsson, Emil Gíslason, Guðmund Jónsson, Brynjólf Jónsson, Svavar Friðleifsson og Bjarnhéðinn Guðjónsson meðal annara.

Ólafur Stolzenwald tók saman

Heimildir og gögn: Aðalbjörn Kjartansson, Einar Kristinsson, Gunnar Hubner, Svavar Hauksson, Jón Ögmundsson, Sigursteinn Steindórsson, Bogi Thoroddsen, Gunnar Bragason, Bjarni Jóhannsson, Goðasteinn og fleiri.