1. gr.
Félagið heitir Golfklúbbur Hellu Rangárvöllum, skammstafað GHR. Heimili þess og varnarþing er í Rangárþingi ytra, Rangárvallasýslu.
2. gr.
Tilgangur félagsins er að glæða áhuga á golfíþróttinni og skapa áhugamönnum aðstöðu til að iðka hana.
3. gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná meðal annars með því að:
Vinna ávallt að því að tryggja félagsmönnum sínum eins góða aðstöðu til golfleiks og framast er kostur á hverjum tíma.
Halda golfmót.
Útvega leiðbeinendur og kennslugögn í íþróttinni eftir föngum.
4. gr.
Félagsmenn í Golfklúbbi Hellu Rangárvöllum geta allir orðið sem vilja vinna að markmiðum félagsins. Inntökubeiðni þarf samþykki félagsfundar, en stjórn getur samþykkt hana til bráðabirgða. Halda skal nákvæmt félagatal.
Stjórn félagsins er heimilt að samþykkja inngöngu aukafélaga með takmarkaða félagsaðild. Aukafélagar skulu eiga rétt á að spila tiltekinn fjölda æfingahringja á Strandarvelli og fá útgefið forgjafaskírteini, enda séu þeir ekki meðlimir í öðrum golfklúbbi og hafi sótt námskeið um golfsiði og golfreglur. Aukafélagar geta tekið þátt í öllum innanfélagsmótum, að undanskildu meistaramóti og holukeppni GHR. Aukafélagar hafa hvorki atkvæðisrétt á fundum klúbbsins né kjörgengi til setu í stjórn eða nefndum. Stjórn klúbbsins setur nánari reglur um réttindi og skyldur aukafélaga og ákveður félagsgjald.
5. gr.
Aðalfundur skal fara með æðsta vald í málefnum klúbbsins. Skal hann haldinn í nóvember ár hver. Fundarboð skal senda hverjum fullgildum félagsmanni, auk aðila sem sent hafa inntökubeiðni til stjórnar, með a.m.k. einnar viku fyrirvara.
Atkvæðisrétt á félagsfundi hafa þeir sem eru skuldlausir vegna síðasta starfsárs. Aðrir félagsmenn, börn og unglingar sem og aukafélagar, hafa tillögurétt og málfrelsi á félagsfundum.
Á dagskrá aðalfundar skulu vera eftirtaldir liðir:
Fundarsetning og kosning starfsmanna fundarins.
Skýrsla stjórnar.
Ársreikningur síðasta starfsárs (1. nóvember – 31. október) lagður fram til samþykktar.
Skýrslur nefnda.
Umræður um skýrslur og reikninga klúbbsins og atkvæðagreiðsla um þá.
Inntaka nýrra félaga.
Lagabreytingar ef fyrir liggja skv. 10. gr. þessara laga.
Kosningar skv. 6. gr. þessara laga.
Önnur mál.
Fundarslit.
Félagsfund skal halda telji stjórn ástæðu til eða ef 1/3 félagsmanna óskar þess skriflega og ber stjórn að halda hann innan 3ja vikna frá móttöku slíkrar beiðni. Fundir eru löglegir sé löglega til þeirra boðað.
6. gr.
Aðalfundur skal kjósa 5 manna stjórn: Formann, varaformann, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda, auk tveggja manna til vara.
Meiri hluti stjórnar skal búsettur í Rangárvallasýslu.
Aðalfundur kjósi endurskoðanda eða skoðunarmann og 1 til vara.
Einnig skal lögð fyrir aðalfund tillaga að nefndarskipan fyrir komandi starfsár til samþykktar.
7. gr.
Stjórn kemur fram fyrir hönd klúbbsins og í fullu umboði hans í öllum málum sem hann varðar. Þó þarf samþykki félagsfundar til ákvarðana sem skuldbinda klúbbinn fjárhagslega fram yfir yfirstandandi fjárhagsár.
Stjórn klúbbsins tilnefnir fulltrúa á aðalfund Rekstrarfélags Strandarvallar, fulltrúa á þing HSK og fulltrúa á þing GSÍ.
8. gr.
Við golfleik á vegum klúbbsins skal farið eftir St. Andrews golfreglum, reglum GSÍ og keppnisreglum ÍSÍ eins og þær eru á hverjum tíma.
Sérreglur setur Kappleikjanefnd í samráði við Vallarnefnd eftir þörfum.
9. gr.
Um upplausn klúbbsins skal fjallað á sérstökum fundi sem til þess er boðaður. Um boðun gildir sama og um aðalfund, og er fundurinn löglegur ef helmingur meðlima mætir. Til að ákvörðun um að upplausn sé lögmæt þurfa að a.m.k. 2/3 hlutar fundarmanna að samþykkja tillögu þar að lútandi.
Ef fundurinn er ekki löglegur skal boða til nýs fundar innan mánaðar og er sá fundur ályktunarhæfur um upplausn hversu fáir sem mæta, sé löglega til hans boðað, en a.m.k. 2/3 hlutar fundarmanna þurfa að samþykkja tillögu þar að lútandi. Um boðun gildir sama og um aðalfund.
10. gr.
Lögum þessum er aðeins unnt að breyta á aðalfundi og þarf til þess samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða. Tillögur að lagabreytingum skulu hafa borist skriflega til stjórnar klúbbsins 15. október eða í síðasta lagi 14 dögum fyrir aðalfund. Geta skal þess sérstaklega í fundarboði ef tillögur um lagabreytingar liggi fyrir aðalfundi.
Þannig samþykkt á aðalfundi 18.nóvember 2010