Kæru félagsmenn,
Skv. Dagatalinu er sumarið sannarlega mætt á grjóthólmann okkar fagra. Lóan og Lundinn farin að hreiðra um sig og dagarnir loksins komnir í mannsæmandi lengd. Því fögnum við hér á Strandarvelli og eru vorverkin þegar hafin og mikill hugur í öllum þeim sem koma að starfsemi GHR. Það eru mörg verk sem þarf að vinna í sumar og mig langar að deila með félagsmönnum hvað við viljum gera í sumar.
Byrjum á því sem liggur mest á.Það sem liggur mest á að lagfæra eru flatirnar. Þær eru fallega grænar úr fjarska en þegar nánar er að gáð má finna ansi margar grastegundir í nær öllum flötum í bland við mosa og aðra órætk. Það er ekki það sem við viljum sjá á flötunum okkar fyrir margar mismunandi ástæður. Því miður dugir einföld áburðar- eða efna gjöf ekki til. Við þurfum að ráðast í nokkuð strangt prógram til að bæta flatirnar. Það mun valda einhverju raski fyrir kylfinga í sumar en þó ekki of miklu. Útkoman verða flatir sem eru fallegar en fyrst og fremst halda línu og bjóða upp á sæmilegan hraða. Það fyrsta sem við ætlum að gera er að gata, yfirsá og sanda flatirnar. Því verður síðan fylgt eftir með áburðargjöf. Við getum ekki ráðist í þetta strax þar sem flatirnar eru enn of mjúkar til þess að höndla vinnubíl með 600kg af sandi án þess að skilja eftir djúp hjólför í flatirnar.
Hvers vegna götun? Þar sem flatir eru mjög snögg slegnar (4-6mm), eru þær viðkvæmar og þurfa að treysta á mikið og heilbrigt rótakerfi. Eftir því sem gras er slegið lægra, minnka rætur plöntunar og verða fljótlega að engu ef þær fá ekki pláss til þess að teygja úr sér og anda. Ef ræturnar minnka aukast líkur á allskonar sjúkdómum sem við viljum ekki. Ekki hjálpar að fá 600kg slátturvél yfir nánast daglega ofan á alla umferð kylfinga og því þarf að gera þetta með reglulegu millibili. Við komum til með að gata með nokkuð stórum tindum fyrst, en það gerir okkur kleift að koma niður grasfræum beint í kjölfarið sem verður 80-90% túnvingull en nánar um það síðar.
Hversvegna yfirsá? Gras lifir ekki mikið meira en 7 ár. Þegar grasflötur er sleginn þetta neðarlega, nær grasið ekki að fjölga sér eins mikið af náttúrunnar hendi og gras sem er slegið hærra eða vex villt. Slíkt er oft ástæða þess að mosi lifi góðu lífi í flötum líkt og í okkar þó ástæðurnar geta verið margar og af öðru eðli. Því þurfum við að sá í til þess að hjálpa þessu ferli og þétta svörðinn, fyrr fæst ekki gott bolta rúll. Yfirleitt er yfirsáð með sérgerðum vélum en slíkt er dýrt og tímafrekt og við gerum þetta samhliða götun þetta skiptið. Fræin sem við leggjum niður verða c.a. 80% túnvingull (nokkur yrki af sömu fjölskyldu) og og 20% língresi. Fínblaða gras sem hentar vel á flatir og þolir þurrk vel. Eins og fyrr segir þá fylgjum við þessu eftir með sandburði sem mun slétta flatirnar og hjálpa okkur við að vinna á mosanum. Þegar öllu þessu er lokið munum við bera áburð sem mun hjálpa nýju grasi að vaxa sem og því grasi sem er í flötunum nú þegar. Síðan verðum við duglegir að krafsa í mosann í sumar og þæfið sem er þykkt með svokölluðum „verti cut“ völsum og fylgjum eftir með söndun. Þetta eru eins og litlir hnífar sem krafsa c.a. 2cm í jarðveginn og lyfta einnig upp grasi sem hefur byrjað að vaxa á hlið helst sökum slátturvéla.
Næsta mál á dagsskrá er almenn snyrtimennska á vellinum sem er jafn mikilvæg og heimafyrir. Fallegt hús verður fljótt ljótt ef snyrtimennska er ekki forgangsatriði. Við segjum þetta gott í bili. Ég kem til með að leggja inn fleiri færslur um hvað við erum að gera á vellinum og hvernig við sjáum hlutina. Að koma vellinum á þann stað sem hann á skilið mun taka sinn tíma, líklegast næstu 2-3 árin hið minnsta. Það mun kosta mikla vinnu en það verður þess virði þegar uppi er staðið .Eða eins og Venni Páer sagði í samnefndum sjónvarpsþætti um árið „Róm var ekki byggð á hverjum degi“.
Með sumarkveðju, Einar Ó. Pálsson Vallarstjóri
